Einar Örn Ævarsson
21. mar. 2023
Farsælustu ríki heimsins leggja höfuðáherslu á að efla atvinnugreinar sem byggja á tækni til að stuðla að verðmætasköpun
Tækniframfarir og hagvöxtur auðugra ríkja grundvallast á sérfræðingum en vaxandi skortur er á þeim í heiminum. Samkvæmt stórri rannsókn ráðgjafafyrirtækisins Korn Ferry mun vanta um 85 milljónir sérfræðinga árið 2030 sem mun leiða til 8,5 trilljónir Bandaríkjadala efnahagslegs fórnarkostnaðar. Hér á Íslandi hafa Samtök iðnaðarins metið það svo að það vanti 9.000 erlenda sérfræðinga til landsins á næstu árum til að innlendur hugverkaiðnaður geti áfram haldið að dafna.
Af þessum ástæðum leita fleiri fyrirtæki eftir erlendum sérfræðingum en sífellt meiri samkeppni er um þá. Það er flókið og tímafrekt að finna, flytja og aðlaga sérfræðinga að nýju landi og fyrirtæki í leit að slíkum starfskröftum eru oft ekki undirbúinn undir verkefnið.
Farsælustu ríki heimsins leggja höfuðáherslu á að efla atvinnugreinar sem byggja á tækni til að stuðla að verðmætasköpun og bættum lífskjörum. Menntaðir sérfræðingar í upplýsingatækni gegna lykilhlutverki í hinu stafræna hagkerfi. Því eru það sífellt fleiri fyrirtæki sem leita út fyrir landsteinana til að finna slíka starfskrafta. Í mörgum tilvikum vilja þau fá sérfræðingana til sín þar sem þéttur hópur sérfræðinga í sama starfsrými stuðlar að þeirri liðsheild og hugmyndaflæði sem oft er forsenda þess að hægt sé að búa til nýjar hátæknivörur eða -þjónustu.
Þau fyrirtæki sem flytja inn erlenda sérfræðinga standa frammi fyrir mörgum áskorunum. Í fyrsta lagi hvar er hægt að finna réttu sérfræðingana, í öðru lagi hvernig er hægt að votta hæfni þeirra, í þriðja lagi hvernig á að sækja um dvalarleyfi fyrir þá, í fjórða lagi hvernig er best að flytja þá til landsins, í fimmta lagi hvernig á að hýsa þá, í sjötta lagi hvernig á að tengja þá í félagskerfi landsins og í sjöunda lagi hvernig á að aðlaga maka viðkomandi sérfræðings að því samfélagi sem hann hefur flutt til.
Ísland er í dauðafæri að laða til sín hæft fólk. Hér er friður og eftirsóknarverðar aðstæður.